Saturday, March 16, 2013

Íslandsmetið í 200 m hlaupi karla frá upphafi

26,1 Guðmundur Kr. Guðm.son Á Melavelli 19. júní 1914
25,0 Þorkell Þorkelsson Á Melavelli 17. júní 1922
24,9 Tryggvi Gunnarsson Á Melavelli 18. júní 1922
24,2 Garðar S. Gíslason ÍR ?? ??
24,0 sami Melavelli 20. júní 1926
23,4 sami ?? 25. sept 1926
23,4 Sveinbjörn Ingimundarson ÍR Melavelli 12. ágúst 1928
23,4 Sveinn Ingvarsson KR Melavelli 29.sept 1935
23,3 sami KR Melavelli 29. júlí 1937
23,2 sami Melavelli 14. sept 1937
23,1 sami Melavelli 13. júlí 1938
23,1 Finnbjörn Þorvaldsson ÍR Melavelli 3. sept 1944
23,0 sami Melavelli 23. júní 1945
22,8 sami Melavelli 13. júlí 1946
22,6 sami Melavelli 6. ágúst 1946
22,4 sami Ósló 24. ágúst 1946
22,3 sami Ósló 24. ágúst 1946
22,1 sami Borås 4. sept 1946
22,1 Haukur Clausen ÍR Melavelli 13. ágúst 1947
21,9 sami Stokkhólmi 7. sept 1947
21,8 sami Melavelli 17. júní 1948
21,6 sami Melavelli 19. júlí 1948
21,5 Hörður Haraldsson Á Melavelli 18. júní 1950
21,3 Haukur Clausen ÍR Eskilstuna 8. sept 1950
21,3 Hilmar Þorbjörnsson Á Rotterdam 24. júlí 1956
21,3 Vilmundur Vilhjálmsson Menden 2. október 1976
21,2 sami Troisdorf 5. júlí 1977
21,2 sami Troisdord 13. júlí 1977
21,2 sami Laugardal 6. ágúst 1977
21,1 sami Laugardal 14. ágúst 1978
21,23 sami Sofia 21. ágúst 1977
21,17 Jón Arnar Magnússon UMSS Laugardal 6.júní 1996
  
Aths.


Fyrstu tvö metin hér að ofan voru aldrei staðfest sem slík. Það var ekki til siðs hjá ÍSÍ að staðfesta jöfnunarmet sem Íslandsmet, því urðu met Sveinbjörns Ingimundarsonar á MÍ 1928 (23,4), Sveins Ingvarssonar 1935 (23,4), Finnbjörns Þorvaldssonar 1944 (23,1) og Hauks Clausen 1947 (22,1) heldur aldrei staðfest, þótt góð og gild væru. 

Á Allsherjarmótinu 1922 sigraði Þorkell Þorkelsson á nýju meti (25,0) í 200 metra hlaupi, en 2.-3. menn urðu jafnir, Kristján L. Gestsson KR og Tryggvi Gunnarsson. Hlupu þeir um sætið næsta dag og urðu enn nær jafnir, á 24,9 sek., Tryggvi þó ívið fyrri, og því var hann einn skráður fyrir metinu þótt Kristján fengi sama tíma.

Garðar S. Gíslason hljóp á 23,7 (220 yards = 23,6 á 200 m) á Íslendingadeginum í Sergeants Park í Winnipeg, 25. ágúst 1925. Um þetta afrek var aldrei sótt sem met.

Finnbjörn Þorvaldsson setti mörg metin í þessari grein, eða sjö. Þar af tvö sama daginn, á EM í Ósló 1946, hið fyrra í riðli og hitt í milliriðli. Haukur Clausen sem uppi var á sama tíma og Finnbjörn setti fimm met, þar af var hið fyrsta metjöfnun, en hið sama er að segja um fyrsta met Finnbjörns. Í kompaníi með þessum frægu görpum er svo Vilmundur Vilhjálmsson með sex met, þar af metjöfnun þrisvar.
 

Saturday, March 2, 2013

Íslandsmetið í 300 m hlaupi karla frá upphafi

38.8 Sigurgeir Ársælsson Á Melavelli ?? sept 1940
37.8 Jóhann Bernhard KR Melavelli 3. sept 1942
37.2 Brynjólfur Ingólfsson KR Melavelli 8. ágúst 1942
37.1 Kjartan Jóhannsson ÍR Melavelli 17. sept 1944
36.9 sami Melavelli 31. júlí 1945
36.6 Finnbjörn Þorvaldsson ÍR Melavelli 16. júlí 1946
34.7 Haukur Clausen ÍR Melavelli 26. júlí 1947
34.7 sami Stokkhólmi 2. sept 1948
34.5 Ásmundur Bjarnason KR Melavelli 25. júlí 1950
34.3 Hilmar Þorbjörnsson Á Melavelli 20. júlí 1957
34.0 Oddur Sigurðsson KA Valbjarnarv. 13. ágúst 1980
33.86 Jón Arnar Magnússon UMSS Mosfellsbæ 14. maí 1994



Aths.
Hér er um grein sem sjaldan hefur verið keppt í. Ætla má, að hún hafi oftast verið sett á þar sem fjöruga frjálsíþróttamenn hafi langað til að spreyta sig við metið hverju sinni. En líka stundum sem tilbreyting við hefðbundnar spretthlaupslengdir.

Fyrsta metið sem vitað er um er hið eina sem aldrei var staðfest. Svo sem fljótt má sjá á listanum eru nær öll metin sett á Melavellinum, sem að sönnu mætti kalla musteri íslenskra frjálsíþrótta. Er það því miður horfið af yfirborði jarðar!
 

Íslandsmetin í 400 m karla frá upphafi

61,0 Sigurjón Pétursson ÍR Melunum 20. júní 1911
55,8 Ólafur Sveinsson ÍR Melunum ?? ?? 1918
56,8 Kristján L. Gestsson KR Melavelli 28. ágúst 1921
56,3 sami Melavelli 23. júní 1922
56,2 Sveinbjörn Ingimundarson ÍR Melavelli 25. sept 1926
54,6 Stefán Bjarnason Á Melavelli 7. ágúst 1927
54,1 Sveinbjörn Ingimundarson ÍR Melavelli 14. ágúst 1928
54,5 Baldur Möller Á Melavelli 25. ágúst 1935
54,1 Sveinn Ingvarsson KR Melavelli 22. sept 1935
52,8 sami Melavelli 19. júlí 1937
52,7 sami Melavelli 28. ágúst 1937
52,6 sami Melavelli 11. júlí 1938
52,6 Sigurgeir Ársælsson Á Melavelli 25. ágúst 1941
52,3 Kjartan Jóhannsson ÍR Melavelli 12. júlí 1944
51,2 sami Melavelli 6. sept 1944
50,7 sami Melavelli 12. ágúst 1945
50,7 sami Bislet 22. ágúst 1946
50,4 Haukur Clausen ÍR Melavelli 6. ágúst 1947
50,2 Guðmundur Lárusson Á Melavelli 10. ágúst 1949
49,7 Ásmundur Bjarnason KR Melavelli 21. ágúst 1949
49,4 Guðmundur Lárusson Á Melavelli 21. ágúst 1949
48,9 sami Stokkhólmi 10. sept 1949
48,0 sami Brussel 24. ágúst 1950
47,46 Bjarni Stefánsson KR München 4. sept 1971
47,1 sami München 24. ágúst 1972
46,76 sami München 3. sept 1972
46,64 Oddur Sigurðsson KR Vesterås 24. júní 1980
46,4 Oddur Baylor 16. apríl1982
46,63 Oddur Aþena 7. sept 1982
46,54 Oddur Forth Worth 14. maí 1983
46,49 Oddur Austin 22. maí 1983
45,69 Oddur Des Moines 28. apríl 1984
45,36 Oddur Austin 12. maí 1984


Aths.


Fyrsta staðfesta metið í 400 metra hlaupi á Kristján L. Gestsson, sett 10 árum eftir að byrjað var að keppa í grein þessari hérlendis. Hin óstaðfestu met Sigurjóns Péturssonar og Ólafs Sveinssonar voru sett á beinni braut á Melunum og var tími Ólafs sekúndunni betri en met Kristjáns L.

Sveinbjörn Ingimundarson var fjölhæfur íþróttamaður og góður. Eftir methlaup hans á 400 metrum á Melavelli 1926 var brautin mæld upp og reyndist 408,30 metrar. Á „réttri“vegalengd hefði tíminn verið um og yfir sekúndu betri!

Seint eða aldrei fæst skýring á því hvers vegna sigurtími Sveinbjörns á meistaramóti Íslands 1928 var ekki staðfestur sem met. Kannski hefur ekki verið sótt um skráningu?  Eða réði hér tilviljun eins og stundum áður við metaskráningu.

Fyrir bragðið er árangur Baldurs Möller á sama móti sjö árum síðar skráður sem met enda stóð þá met Stefáns Bjarnasonar frá MÍ 1927 á metaskránni.

„Met“ Baldurs – sem var í raun ekki met – stóð stutt því á leikmóti leikmóti „Ólympsnefndar“ á Melavelli fjórum vikum seinna hljóp Sveinn Ingvarsson hálfri sekúndu hraðar. Þar var hann einungis í raun að jafna met Sveinbjörns frá 1928. ÍSÍ hafði það til siðs að skrá ekki metjafnanir og af þeirri ástæðu var metjöfnun Sigurgeirs Ársælssonar á Melavelli 1941 ekki að finna á metaskrám.

Það er óvenjulegt við annað met Kjartans Jóhannssonar á vegalengdinni, 51,2 sek., að það er sett í hálfleik í viðureign Fram og Vals í Walterskeppninni í knattspyrnu. Brynjólfur Ingólfsson, síðar formaður FRÍ, hljóp einnig undir gamla metinu, hlaut 52,0 sek. Um leikinn er það að segja, að eina mark hans skoraði gamall fimleika og frjálsíþróttamaður úr ÍR, Ellert Sölvason, Val.

Hinn frægi Íslandssonur Haukur Clausen komst á metaskrána í 400 metra hlaupi er hann setti Íslandsmet á Melavelli 1947. Hann var þá undir tvítugu og metið setti Haukur á drengjameistaramótinu. 

Á meistaramóti Íslands á Melavelli 1949 gerðust þau stórmerki, að tvö met voru sett í 400 metra hlaupi og það sama daginn. Fyrri til varð Ásmundur Bjarnason í riðlakeppninni en Guðmundur Lárusson bætti svo um betur í úrslitahlaupinu.

Í 400 metra hlaupi hafa nokkrir hlauparar staðið sig vel á alþjóðlegum stórmótum. Þannig settu þeir Kjartan Jóhannsson og Guðmundur Lárusson met á Evrópumeistaramótinu. Sá fyrrnefndi í Ósló 1946 og Guðmundur í Brussel. Metið setti hann í undanúrslitum sem stóð í 21 ár. Í úrslitahlaupinu var hann aðeins sekúndubroti frá metinu en merkilegra þó er að hann varð fjórði í mark, einu sæti frá verðlaunum.

Bjarni Stefánsson varð fyrstur Íslendinga undir 47 sekúndur með hlaupi sínu á ólympíuleikunum í München 1972. Þá stóð Oddur Sigurðsson sig vel í Aþenu 1982 með því að setja þriðja Íslandsmetið í 400 á EM.

Oddur átti eftir að afreka mjög á keppnisferlinum sem bar hæst er hann komst í milliriðla á ólympíuleikunum í Los Angeles. Fyrr á því ári hélt Oddur skemmtilega upp á 25 ára afmælisdag sinn með því að setja met og fara fyrstur Íslendinga undir 46 sekúndur, en það hefur enginn leikið eftir. Og nú styttist í að metið frá Los Angeles nái þrítugsaldri.
 

Friday, March 1, 2013

Elsta met frjálsíþróttanna - að verða 103 ára?

1:30,0 Ágúst Eyjólfsson HSK Þjórsártúni 9. júlí 1910
1:20,8 Ólafur Magnússon ÍR Melunum 31.júlí 1910
1:18,4 Ingólfur Indriðason HSÞ Húsavík 17. júní 1910



Aths.
Á bernskuárum frjálsíþróttanna var öðru hverju – frekar sjaldan þó – keppt í 500 metra hlaupi á mótum. Hin hlaupagreinin var þá gjarnan 100 metra hlaup. Fyrsta keppnin sem vitað er um fór fram á Húsavík, á íþróttamóti Norðlendinga, þann 17. júní 1910.

Einnig var keppt í greininni á íþróttadegi UMFN í Reykjavík 31.júlí og ennfremur á fyrsta íþróttamótinu sem haldið var fyrir austan fjall, við Þjórsárbrú 9. júlí.

Ekki hef ég fundið upplýsingar um fjölda annarra keppenda og árangur en Ingólfs Indriðasonar í hlaupinu á Húsavík. Á mótinu á Melunum var fyrstur níu keppenda Ólafur Magnússon ÍR á 1:20,8 mín., annar Magnús Tómasson ÍR á 1:22,6 og þriðji Guðmundur Þórðarson ÍR á 1:25,0.

Á Þjórsártúni varð Ágúst Eyjólfsson í Hvammi fyrstur á 1:30 mín., annar Guðmundur Ásmundsson á Apavatni á 1:33 og þriðji Helgi Pálsson í Ey á 1:35 mín.

Dæmi eru um að keppendur hafi hlaupið á beinni braut, eða vegi og mun svo hafa verið á Melamótinu þar sem Ólafur Magnússon varð fyrstur.

Sögunnar vegna er sigurvegurum þessara þriggja móta raðað hér upp, en vegna aðstæðna má spyrja hvort hægt sé að telja þessi afrek til meta. Það skyldi þó aldrei vera, að hér sé um að ræða elsta Íslandsmet sögunnar; árangur Ingólfs Indriðasonar frá Húsabakka í Aðaldal á Norðlendingamótinu á Húsavík 1910? Það verður 103 ára í sumar en mér er til efs að íþróttamet hafi lifað svo lengi. Nema þá afrek Skarphéðins forðum, heljarstökkið fræga í fullum herklæðum og stökk hans yfir Markarfljót. 

Og hvernig væri nú að spretthlauparar tækju metinu sem áskorun til að gera betur og félög settu það sem keppnisgrein á mótum sínum í sumar? 

Fróðlegt verður hvort frekara grúsk leiði í ljós fleiri mót en þessi framangreindu þar sem keppt var í 500 metra hlaupi.