Saturday, March 2, 2013

Íslandsmetin í 400 m karla frá upphafi

61,0 Sigurjón Pétursson ÍR Melunum 20. júní 1911
55,8 Ólafur Sveinsson ÍR Melunum ?? ?? 1918
56,8 Kristján L. Gestsson KR Melavelli 28. ágúst 1921
56,3 sami Melavelli 23. júní 1922
56,2 Sveinbjörn Ingimundarson ÍR Melavelli 25. sept 1926
54,6 Stefán Bjarnason Á Melavelli 7. ágúst 1927
54,1 Sveinbjörn Ingimundarson ÍR Melavelli 14. ágúst 1928
54,5 Baldur Möller Á Melavelli 25. ágúst 1935
54,1 Sveinn Ingvarsson KR Melavelli 22. sept 1935
52,8 sami Melavelli 19. júlí 1937
52,7 sami Melavelli 28. ágúst 1937
52,6 sami Melavelli 11. júlí 1938
52,6 Sigurgeir Ársælsson Á Melavelli 25. ágúst 1941
52,3 Kjartan Jóhannsson ÍR Melavelli 12. júlí 1944
51,2 sami Melavelli 6. sept 1944
50,7 sami Melavelli 12. ágúst 1945
50,7 sami Bislet 22. ágúst 1946
50,4 Haukur Clausen ÍR Melavelli 6. ágúst 1947
50,2 Guðmundur Lárusson Á Melavelli 10. ágúst 1949
49,7 Ásmundur Bjarnason KR Melavelli 21. ágúst 1949
49,4 Guðmundur Lárusson Á Melavelli 21. ágúst 1949
48,9 sami Stokkhólmi 10. sept 1949
48,0 sami Brussel 24. ágúst 1950
47,46 Bjarni Stefánsson KR München 4. sept 1971
47,1 sami München 24. ágúst 1972
46,76 sami München 3. sept 1972
46,64 Oddur Sigurðsson KR Vesterås 24. júní 1980
46,4 Oddur Baylor 16. apríl1982
46,63 Oddur Aþena 7. sept 1982
46,54 Oddur Forth Worth 14. maí 1983
46,49 Oddur Austin 22. maí 1983
45,69 Oddur Des Moines 28. apríl 1984
45,36 Oddur Austin 12. maí 1984


Aths.


Fyrsta staðfesta metið í 400 metra hlaupi á Kristján L. Gestsson, sett 10 árum eftir að byrjað var að keppa í grein þessari hérlendis. Hin óstaðfestu met Sigurjóns Péturssonar og Ólafs Sveinssonar voru sett á beinni braut á Melunum og var tími Ólafs sekúndunni betri en met Kristjáns L.

Sveinbjörn Ingimundarson var fjölhæfur íþróttamaður og góður. Eftir methlaup hans á 400 metrum á Melavelli 1926 var brautin mæld upp og reyndist 408,30 metrar. Á „réttri“vegalengd hefði tíminn verið um og yfir sekúndu betri!

Seint eða aldrei fæst skýring á því hvers vegna sigurtími Sveinbjörns á meistaramóti Íslands 1928 var ekki staðfestur sem met. Kannski hefur ekki verið sótt um skráningu?  Eða réði hér tilviljun eins og stundum áður við metaskráningu.

Fyrir bragðið er árangur Baldurs Möller á sama móti sjö árum síðar skráður sem met enda stóð þá met Stefáns Bjarnasonar frá MÍ 1927 á metaskránni.

„Met“ Baldurs – sem var í raun ekki met – stóð stutt því á leikmóti leikmóti „Ólympsnefndar“ á Melavelli fjórum vikum seinna hljóp Sveinn Ingvarsson hálfri sekúndu hraðar. Þar var hann einungis í raun að jafna met Sveinbjörns frá 1928. ÍSÍ hafði það til siðs að skrá ekki metjafnanir og af þeirri ástæðu var metjöfnun Sigurgeirs Ársælssonar á Melavelli 1941 ekki að finna á metaskrám.

Það er óvenjulegt við annað met Kjartans Jóhannssonar á vegalengdinni, 51,2 sek., að það er sett í hálfleik í viðureign Fram og Vals í Walterskeppninni í knattspyrnu. Brynjólfur Ingólfsson, síðar formaður FRÍ, hljóp einnig undir gamla metinu, hlaut 52,0 sek. Um leikinn er það að segja, að eina mark hans skoraði gamall fimleika og frjálsíþróttamaður úr ÍR, Ellert Sölvason, Val.

Hinn frægi Íslandssonur Haukur Clausen komst á metaskrána í 400 metra hlaupi er hann setti Íslandsmet á Melavelli 1947. Hann var þá undir tvítugu og metið setti Haukur á drengjameistaramótinu. 

Á meistaramóti Íslands á Melavelli 1949 gerðust þau stórmerki, að tvö met voru sett í 400 metra hlaupi og það sama daginn. Fyrri til varð Ásmundur Bjarnason í riðlakeppninni en Guðmundur Lárusson bætti svo um betur í úrslitahlaupinu.

Í 400 metra hlaupi hafa nokkrir hlauparar staðið sig vel á alþjóðlegum stórmótum. Þannig settu þeir Kjartan Jóhannsson og Guðmundur Lárusson met á Evrópumeistaramótinu. Sá fyrrnefndi í Ósló 1946 og Guðmundur í Brussel. Metið setti hann í undanúrslitum sem stóð í 21 ár. Í úrslitahlaupinu var hann aðeins sekúndubroti frá metinu en merkilegra þó er að hann varð fjórði í mark, einu sæti frá verðlaunum.

Bjarni Stefánsson varð fyrstur Íslendinga undir 47 sekúndur með hlaupi sínu á ólympíuleikunum í München 1972. Þá stóð Oddur Sigurðsson sig vel í Aþenu 1982 með því að setja þriðja Íslandsmetið í 400 á EM.

Oddur átti eftir að afreka mjög á keppnisferlinum sem bar hæst er hann komst í milliriðla á ólympíuleikunum í Los Angeles. Fyrr á því ári hélt Oddur skemmtilega upp á 25 ára afmælisdag sinn með því að setja met og fara fyrstur Íslendinga undir 46 sekúndur, en það hefur enginn leikið eftir. Og nú styttist í að metið frá Los Angeles nái þrítugsaldri.
 

No comments:

Post a Comment