Sunday, January 27, 2013

Íslandsmetin í 400 m grindahlaupi karla

61,9 Jón M. Jónsson KR Melavelli 12. júlí 1945
60,9 sami Melavelli 11. ágúst 1945
59,7 Brynjólfur Ingólfsson KR Melavelli 6. ágúst 1946
59,0 Reynir Sigurðsson ÍR Melavelli 11. ágúst 1947
57,1 sami Melavelli 15. júlí 1948
56,1 Sigurður Björnsson KR Melavelli 22. júlí 1949
54,7 Örn Clausen ÍR Ósló 28. júní 1951
54,6 Sigurður Björnsson KR Gautaborg 18. sept 1960
53,6 Stefán Hallgrímsson KR Laugardalsv. 11. júlí 1973
52,7 sami Ósló 22. ágúst 1973
52,4 sami Tromsö 26. júlí 1975
51,8 sami Laugardalsv. 3. sept.1975
52,19 Þorvaldur Víðir Þórsson ÍR Logan Utah 15. maí 1982
51,97 sami San Jose 16. apríl 1983
51,77 sami Walnut 23. apríl 1983
51,38 sami Santa Barbara 14. maí 1983
51,17 Björgvin Víkingsson FH Rehlingen 24. maí 2008


aths.
Fyrsta metið í 400 m grindahlaupi var sett í fyrstu keppni í greininni, á Reykjavíkurmeistaramótinu sem fram fór á Melavelli. Höfðu frjálsíþróttamenn þá aðeins haft einn mánuð til að æfa þessa grein og venja sig við hana. Þrátt fyrir slæmt veður bætti hann svo metið um sekúndu mánuði seinna, á Meistaramóti Íslands, einnig á Melavelli.

Þriðja metið var einnig sett á meistaramótinu en þar var að verki Brynjólfur Ingólfsson, annálaður skrásetjari íþróttaafreka og um skeið formaður FRÍ. Hann varð fyrstur til að hlaupa á innan við einni mínútu. Annar maður í hlaupinu, Ragnar Björnsson UMFR, hljóp einnig undir gamla metinu, hljóp á 59,8 sekúndum.

Meistaramótið var ennfremur vettvangur næsta mets, er Reynir Sigurðsson, síðar formaður ÍR, bætti met Brynjólfs. Hann var enn á ferðinni árið eftir og stórbætti metið á Reykjavíkurmótinu, eða um 1,9 sekúndur. Hafði enda æft vel um veturinn til að komast á ólympíuleikana í London, sem honum tókst.

Seinna met Reynis stóð ekki nema í eitt ár eða þar til Sigurður Björnsson, síðar varaformaður FRÍ, bætti það á Reykjavíkurmótinu. Var ekki sett met í 400 grind á Íslandi eftir það í 24 ár. Örn Clausen var að verki þegar fyrsta metið í greininni var sett á erlendri grundu. Er það með sögulegri hlaupum því það var fyrsta grein hinnar miklu landskeppni Norðmanna, Dana og Íslendinga í Ósló í lok júní 1951. Fóru Íslendingar með sigur af hólmi í þeirri keppni sem enn telst til helstu íþróttasigra okkar. Í hlaupinu jafnaði Ingi Þorsteinsson, síðar formaður FRÍ, gildandi met er hann varð þriðji á 56,1 sek.

Eftir öra metasláttu á fyrstu árunum breyttist metið aðeins einu sinni milli 1951 og 1973, eða í rúma tvo áratugi. Hljóp þá fjör í greinina á ný því þeir Stefán Hallgrímsson og Þorvaldur Þórsson settu átta met á einum áratug, 1973-83. Eftir það stóð metið óhaggað í aldarfjórðung.

Til gamans má geta þess, að þegar Stefán setti sitt síðasta met var Þorvaldur í öðru sæti á persónulegu meti, 59,0 sekúndum. Þorvaldur tók miklum framförum eftir að hann hélt til náms í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Hann boðaði það sem koma skyldi í fyrsta hlaupi á vegalengdinni, 6. mars 1982 í Westwood, en þar sótti hann að meti Stefáns með tímanum 52,80 sekúndur. Röskum tveimur mánuðum seinna setti hann fyrsta met sitt af fjórum.

meira síðar . . .

Íslandsmetin í 3000 m hindrunarhlaupi karla

10:51.0 Eiríkur Haraldsson Á Melavelli 20. maí 1951
10:38.8 sami Melavelli 16. júní 1951
10:12.6 sami Melavelli 20. ágúst 1951
10:06.2 Kristján Jóhannsson ÍR Melavelli 25. ágúst 1952
9:53.6 sami Melavelli 30. júlí 1953
9:47.4 sami Akureyri 17. ágúst 1953
9:43.2 Stefán Árnason UMSE Melavelli 22. júlí 1955
9:26.4 Kristleifur Guðbjörnsson KR Melavelli 26. júlí 1958
9:25.4 sami Randers 31.ágúst 1958
9:16.2 sami Melavelli 6. júní 1959
9:07.6 sami Dresden 25. sept 1960
9:06.8 sami Ósló 12.júlí 1961
8:56.4 sami Ósló 1.ágúst 1961
8:53.95 Ágúst Ásgeirsson ÍR Montreal ÓL 26. júlí 1976
8:49.58 Jón Diðriksson UMSB Remscheid 28. júní 1981
8:46.29 Sveinn Margeirsson UMSS Borås 12. júní 2003


aths.
Þegar Eiríkur setti sitt þriðja og síðasta met, á meistaramótinu 1951, varð Hreiðar Jónsson KA einnig undir gamla metinu, hljóp á 10:13,8 mín. Lítið sem ekkert var keppt í greininni nema á meistaramótinu og sett voru met á því í greininni næstu tvö árin. Einnig féllu hindrunarhlaupsmet í landskeppnum 1955, 1956, 1958 og 1961.

Haukur Engilbertsson úr UMSB var einnig undir gamla metinu (9:43,2) er Kristleifur Guðbjörnsson setti sitt fyrsta met, á MÍ á Melavelli 1958. Haukur hljóp á 9:31,4 mín.

Metið í hindrunarhlaupi tók miklum breytingum til hins betra eftir að Kristleifur lagði þessa grein fyrir sig. Er látum hans loks linnti hafði hann sex sinnum sett met í greininni og bætt það um alls rúmar 46 sekúndur. Síðasta metið setti Kristleifur í Norðurlandakeppninni í Ósló 1961 og hljóp þá fyrstur Íslendinga undir níu mínútum. Þrír hlauparar hafa síðan bætt um betur.

meira síðar . . .

Wednesday, January 23, 2013

Íslandsmetin í 25 km götuhlaupi karla

Halldór Guðbjörnsson KR 1:29.58.2 Reykjavík 27. maí 1971
Ágúst Ásgeirsson ÍR 1:25.54.3 Keflavík 16. maí 1981
sami 1:23.13.5 Keflavík 15. maí 1982
Sigurður P. Sigmundsson FH 1:24.09 Bolton 23. maí 1982



aths.
Með vaxandi áhuga á langhlaupum samþykkti ársþing Frjálsíþróttasambandsins haustið 1980 að bæta við tveimur nýjum keppnisgreinum á meistaramóti Íslands í karlaflokki frá og með 1981; 25 km hlaupi og maraþonhlaupi. Styttri greinin lifði aðeins sem meistaramótsgrein í fjögur ár því ákveðið var á þinginu haustið 1984 að breyta henni í ½-maraþon.

Fyrstu tvö árin fór keppnin í 25 km fram á Rosmhvalanesi við einstaklega hagstæð hlaupaskilyrði bæði árin. Sól og blíða og lítilsháttar gola á slóðum sem fremur eru þekktar fyrir vindbelging en logn. Hlaupið hófst og lauk við íþróttavöllinn í Keflavík, en frá honum lá leiðin út í Garð, þaðan yfir til Sandgerðis og loks til baka yfir Miðnesheiði.

Löngu síðar komu upp efasemdir um að hlaupaleiðin hafi ekki verið fullir 25 km, án þess þó mér vitanlega að hún hafi verið mæld upp. Þess vegna stóð met Ágústs árum saman á metaskrám FRÍ. Leiðin var mæld með þeim aðferðum sem þá tíðkuðust og töldust góðar en nú til dags ríkja allt aðrar kröfur til mælinga staðlaðra keppnisvegalengda. Vera má, að samkvæmt þeim vanti einhverja tugi metra metra, en varla marga. Til gamans hef ég mælthringinn með forritinu openrunner.com. Það ágæta forrit tekur ekki tillit til hæðarbreytinga en samkvæmt sjálfum Pýþagoras vanmælir þetta tæki því leiðina.

Bretar hafa verið öðrum fremri í að mæla götuhlaupaleiðir með stöðluðum nákvæmis aðferðum. Án þess þó að nokkuð liggi fyrir um það er hugsanlegt, að 25 km hlaup Sigurðar Péturs sé hið eina af ofangreindum hlaupum sem er fullrar lengdar. 

Köst og stökk afgreidd – þó ekki alveg



Þá hef ég sett hér Íslandsmetin í kastgreinum, og aðeins betur en það. Að vísu bíða löngu látnar keppnisgreinar á borð við kúluvarp, kringlukast og spjótkast beggja handa. Þeir listar eru svo gott sem búnir í vinnslu, rétt eins og flestar aðrar ókomnar greinar.

Á næstunni, og eftir því sem tími gefst, munu aðrar greinar birtast hér jafnt og þétt. Ég þakka ábendingar sem komið hafa, en hvet um leið alla þá sem telja einhvern árangur vanta á listana að hafa samband við mig, agasf1@gmail.com.

Hér hafa aðeins birst karlagreinar. Þegar þær eru komnar taka kvennagreinarnar við. Þær hafa verið líflegri í seinni tíð sakir mikils metafjölda síðasta aldarfjórðunginn eða svo. Á sama tíma og met hjá körlum hefðu mátt fleiri vera.

Íslandsmetið í lóðkasti karla frá upphafi

14.21 Jón H. Magnússon ÍR Borås 1. sept. 1964
16.09 Erlendur Valdimarsson ÍR Melavelli 26. sept 1970
17.75 sami Melavelli ?? ???? 1970
18.30 sami Melavelli 2. okt. 1971
18.55 sami Melavelli 21. okt. 1972
20.64 sami Melavelli 14. júní 1973
21.49 Bergur Ingi Pétursson FH Kaplakrika 7. ágúst 2010

aths.

Engar heimildir hef ég fundið um sleggjukast frá því fyrir árið 1964 og er Jón H. Magnússon því sá fyrsti sem setur met í greininni, en það gerði hann á móti í Svíþjóð.

Að vísu vara keppt í lóðkasti á Íslendingadeginum í Winnipeg t.d. bæði 1913 og 1915, Notast var við mun léttara lóð þar, eða 16 punda í stað 15 kílóa eins og hér hefur verið keppt með. Á fyrra mótinu vannst lóðkastið með 9,76 metrum og 10,16 hið síðara. Ætla mætti að þetta hafi í raun verið kúluvarp þótt kallað sé lóðkast, því þyngdin er sú sama og vegalengdirnar bera ekki með sér að beitt hafi verið snúningsatrennu!

Lóðkast hefur ekki verið stundað svo orð sé á gerandi heldur gripu kastarar öðru hverju til lóðsins á kastmótum í vertíðarlok. Það á vel við um Erlendr Valdimarsson sem bætti metið verulega um og upp úr 1970 á kastmótum ÍR.

Besti árangur Erlendar stóð sem Íslandsmet í 37 ár, eða þar til Bergur Ingi Pétursson tók til við greinina 1970. Daginn áður en hann setti metið hjó hann að meti Erlendar með 20,48 kasti, einnig á kastmóti FH í Kaplakrika.

Monday, January 14, 2013

Íslandsmetið í hálfmaraþoni karla frá upphafi

1:20.43 Óskar Guðmundsson FH Gautaborg 1. júlí 1981
1:10.53 Sigurður P. Sigmundsson FH Thurles 21. ágúst 1983
1:10.48 Steinar Jens Friðgeirsson ÍR Reykjavík 17. ágúst 1984
1:08.14 Sigurður P. Sigmundsson FH Reykjavík 25. ágúst 1985
1:07.09 sami Haag 05. apríl 1986
1:06.29 Kári Steinn Karlsson UBK Ísafjörður 15. júlí 2011
1:05.35 sami Reykjavík 20. ágúst 2011


Aths.
Fyrsta keppni í hálfmaraþoni á Íslandi fór fram í Reykjavík 1984 og var liður í Kalottkeppninni í frjálsíþróttum. Fyrstur Íslendinga varð Steinar Jens Friðgeirsson ÍR á 1:10,48 klst., en í ljós kom, að vegalengdin var ófullnægjandi löng með þeim mælingaaðferðum sem þá tíðkuðust og töldust fullnægjandi hér á landi.

Árið áður, eða 1983, tók Sigurður P. Sigmundsson FH þátt í hálfmaraþonhlaupi í bænum Thurles á Írlandi og hlaut tímann 1:10,53 klst. Á leið aftur til Dyflinnar að hlaupi loknu fór járnbrautarlestin sem hann ferðaðist með útaf sporinu og biðu farþegar bana en Sigurður Pétur slapp heill frá hildileik þessum.

Í Reykjavíkurmaraþoninu 1985 varð Sigurður Pétur fyrstur Íslendinga til að klára hálfmaraþon á innan við 70 mínútum. Ári seinna í Hollandi bætti hann enn betur um metið og stóð það í rösk 25 ár, eða frá aprílmánuði 1986 þar til Kári Steinn Karlsson sló það í Reykjavíkurmaraþoninu 2011. Mánuði áður hljóp hann undir gamla metinu en keppnisbrautin í Óshlíðarhlaupinu mun ekki hafa verið formlega mæld.

Líkur benda til þess, að bróðir Sigurðar Péturs, Óskar Guðmundsson, hafi orðið fyrstur Íslendinga til að keppa í hálfmaraþoni. Í slíku hlaupi í Gautaborg 1. júlí 1981 lagði hann vegalendina að baki á 1:20,43 klst. Sá árangur mun þó aldrei hafa verið skráður sem met.

meira síðar . . .