Sunday, January 27, 2013

Íslandsmetin í 400 m grindahlaupi karla

61,9 Jón M. Jónsson KR Melavelli 12. júlí 1945
60,9 sami Melavelli 11. ágúst 1945
59,7 Brynjólfur Ingólfsson KR Melavelli 6. ágúst 1946
59,0 Reynir Sigurðsson ÍR Melavelli 11. ágúst 1947
57,1 sami Melavelli 15. júlí 1948
56,1 Sigurður Björnsson KR Melavelli 22. júlí 1949
54,7 Örn Clausen ÍR Ósló 28. júní 1951
54,6 Sigurður Björnsson KR Gautaborg 18. sept 1960
53,6 Stefán Hallgrímsson KR Laugardalsv. 11. júlí 1973
52,7 sami Ósló 22. ágúst 1973
52,4 sami Tromsö 26. júlí 1975
51,8 sami Laugardalsv. 3. sept.1975
52,19 Þorvaldur Víðir Þórsson ÍR Logan Utah 15. maí 1982
51,97 sami San Jose 16. apríl 1983
51,77 sami Walnut 23. apríl 1983
51,38 sami Santa Barbara 14. maí 1983
51,17 Björgvin Víkingsson FH Rehlingen 24. maí 2008


aths.
Fyrsta metið í 400 m grindahlaupi var sett í fyrstu keppni í greininni, á Reykjavíkurmeistaramótinu sem fram fór á Melavelli. Höfðu frjálsíþróttamenn þá aðeins haft einn mánuð til að æfa þessa grein og venja sig við hana. Þrátt fyrir slæmt veður bætti hann svo metið um sekúndu mánuði seinna, á Meistaramóti Íslands, einnig á Melavelli.

Þriðja metið var einnig sett á meistaramótinu en þar var að verki Brynjólfur Ingólfsson, annálaður skrásetjari íþróttaafreka og um skeið formaður FRÍ. Hann varð fyrstur til að hlaupa á innan við einni mínútu. Annar maður í hlaupinu, Ragnar Björnsson UMFR, hljóp einnig undir gamla metinu, hljóp á 59,8 sekúndum.

Meistaramótið var ennfremur vettvangur næsta mets, er Reynir Sigurðsson, síðar formaður ÍR, bætti met Brynjólfs. Hann var enn á ferðinni árið eftir og stórbætti metið á Reykjavíkurmótinu, eða um 1,9 sekúndur. Hafði enda æft vel um veturinn til að komast á ólympíuleikana í London, sem honum tókst.

Seinna met Reynis stóð ekki nema í eitt ár eða þar til Sigurður Björnsson, síðar varaformaður FRÍ, bætti það á Reykjavíkurmótinu. Var ekki sett met í 400 grind á Íslandi eftir það í 24 ár. Örn Clausen var að verki þegar fyrsta metið í greininni var sett á erlendri grundu. Er það með sögulegri hlaupum því það var fyrsta grein hinnar miklu landskeppni Norðmanna, Dana og Íslendinga í Ósló í lok júní 1951. Fóru Íslendingar með sigur af hólmi í þeirri keppni sem enn telst til helstu íþróttasigra okkar. Í hlaupinu jafnaði Ingi Þorsteinsson, síðar formaður FRÍ, gildandi met er hann varð þriðji á 56,1 sek.

Eftir öra metasláttu á fyrstu árunum breyttist metið aðeins einu sinni milli 1951 og 1973, eða í rúma tvo áratugi. Hljóp þá fjör í greinina á ný því þeir Stefán Hallgrímsson og Þorvaldur Þórsson settu átta met á einum áratug, 1973-83. Eftir það stóð metið óhaggað í aldarfjórðung.

Til gamans má geta þess, að þegar Stefán setti sitt síðasta met var Þorvaldur í öðru sæti á persónulegu meti, 59,0 sekúndum. Þorvaldur tók miklum framförum eftir að hann hélt til náms í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Hann boðaði það sem koma skyldi í fyrsta hlaupi á vegalengdinni, 6. mars 1982 í Westwood, en þar sótti hann að meti Stefáns með tímanum 52,80 sekúndur. Röskum tveimur mánuðum seinna setti hann fyrsta met sitt af fjórum.

meira síðar . . .

No comments:

Post a Comment