Wednesday, January 23, 2013

Íslandsmetin í 25 km götuhlaupi karla

Halldór Guðbjörnsson KR 1:29.58.2 Reykjavík 27. maí 1971
Ágúst Ásgeirsson ÍR 1:25.54.3 Keflavík 16. maí 1981
sami 1:23.13.5 Keflavík 15. maí 1982
Sigurður P. Sigmundsson FH 1:24.09 Bolton 23. maí 1982



aths.
Með vaxandi áhuga á langhlaupum samþykkti ársþing Frjálsíþróttasambandsins haustið 1980 að bæta við tveimur nýjum keppnisgreinum á meistaramóti Íslands í karlaflokki frá og með 1981; 25 km hlaupi og maraþonhlaupi. Styttri greinin lifði aðeins sem meistaramótsgrein í fjögur ár því ákveðið var á þinginu haustið 1984 að breyta henni í ½-maraþon.

Fyrstu tvö árin fór keppnin í 25 km fram á Rosmhvalanesi við einstaklega hagstæð hlaupaskilyrði bæði árin. Sól og blíða og lítilsháttar gola á slóðum sem fremur eru þekktar fyrir vindbelging en logn. Hlaupið hófst og lauk við íþróttavöllinn í Keflavík, en frá honum lá leiðin út í Garð, þaðan yfir til Sandgerðis og loks til baka yfir Miðnesheiði.

Löngu síðar komu upp efasemdir um að hlaupaleiðin hafi ekki verið fullir 25 km, án þess þó mér vitanlega að hún hafi verið mæld upp. Þess vegna stóð met Ágústs árum saman á metaskrám FRÍ. Leiðin var mæld með þeim aðferðum sem þá tíðkuðust og töldust góðar en nú til dags ríkja allt aðrar kröfur til mælinga staðlaðra keppnisvegalengda. Vera má, að samkvæmt þeim vanti einhverja tugi metra metra, en varla marga. Til gamans hef ég mælthringinn með forritinu openrunner.com. Það ágæta forrit tekur ekki tillit til hæðarbreytinga en samkvæmt sjálfum Pýþagoras vanmælir þetta tæki því leiðina.

Bretar hafa verið öðrum fremri í að mæla götuhlaupaleiðir með stöðluðum nákvæmis aðferðum. Án þess þó að nokkuð liggi fyrir um það er hugsanlegt, að 25 km hlaup Sigurðar Péturs sé hið eina af ofangreindum hlaupum sem er fullrar lengdar. 

No comments:

Post a Comment