Friday, March 1, 2013

Elsta met frjálsíþróttanna - að verða 103 ára?

1:30,0 Ágúst Eyjólfsson HSK Þjórsártúni 9. júlí 1910
1:20,8 Ólafur Magnússon ÍR Melunum 31.júlí 1910
1:18,4 Ingólfur Indriðason HSÞ Húsavík 17. júní 1910



Aths.
Á bernskuárum frjálsíþróttanna var öðru hverju – frekar sjaldan þó – keppt í 500 metra hlaupi á mótum. Hin hlaupagreinin var þá gjarnan 100 metra hlaup. Fyrsta keppnin sem vitað er um fór fram á Húsavík, á íþróttamóti Norðlendinga, þann 17. júní 1910.

Einnig var keppt í greininni á íþróttadegi UMFN í Reykjavík 31.júlí og ennfremur á fyrsta íþróttamótinu sem haldið var fyrir austan fjall, við Þjórsárbrú 9. júlí.

Ekki hef ég fundið upplýsingar um fjölda annarra keppenda og árangur en Ingólfs Indriðasonar í hlaupinu á Húsavík. Á mótinu á Melunum var fyrstur níu keppenda Ólafur Magnússon ÍR á 1:20,8 mín., annar Magnús Tómasson ÍR á 1:22,6 og þriðji Guðmundur Þórðarson ÍR á 1:25,0.

Á Þjórsártúni varð Ágúst Eyjólfsson í Hvammi fyrstur á 1:30 mín., annar Guðmundur Ásmundsson á Apavatni á 1:33 og þriðji Helgi Pálsson í Ey á 1:35 mín.

Dæmi eru um að keppendur hafi hlaupið á beinni braut, eða vegi og mun svo hafa verið á Melamótinu þar sem Ólafur Magnússon varð fyrstur.

Sögunnar vegna er sigurvegurum þessara þriggja móta raðað hér upp, en vegna aðstæðna má spyrja hvort hægt sé að telja þessi afrek til meta. Það skyldi þó aldrei vera, að hér sé um að ræða elsta Íslandsmet sögunnar; árangur Ingólfs Indriðasonar frá Húsabakka í Aðaldal á Norðlendingamótinu á Húsavík 1910? Það verður 103 ára í sumar en mér er til efs að íþróttamet hafi lifað svo lengi. Nema þá afrek Skarphéðins forðum, heljarstökkið fræga í fullum herklæðum og stökk hans yfir Markarfljót. 

Og hvernig væri nú að spretthlauparar tækju metinu sem áskorun til að gera betur og félög settu það sem keppnisgrein á mótum sínum í sumar? 

Fróðlegt verður hvort frekara grúsk leiði í ljós fleiri mót en þessi framangreindu þar sem keppt var í 500 metra hlaupi.
 

No comments:

Post a Comment