Wednesday, December 5, 2012

Fyrstu Íslandsmetin rúmlega aldargömul

Fyrstu Íslandsmetin í frjálsíþróttum eru rúmlega hundrað ára gömul. Er það nokkurn veginn í samræmi við skipulega iðkun íþróttarinnar sem hófst undir lok fyrsta áratugar tuttugustu aldarinnar. Helst það sumpart í hendur við ólympíuleikana í London 1908 sem urðu hraustum og vöskum ungum mönnum hvatning til að taka upp nýjar íþróttir samhliða eða í staðinn fyrir glímu.

Fyrstu metin í karlagreinum eru eftir því sem næst verður komist frá því 1909 en þá voru fyrstu frjálsíþróttamótin haldin; ekki bara í Reykjavík heldur víða um land. Víða voru þau hluti af þjóðhátíðinni gömlu í byrjun ágústmánaðar.

Fyrstu kvennametin eru ögn yngri en þau má rekja aftur til sérstaks kvennamóts sem Íþróttafélag Reykjavíkur stóð fyrir í tengslum við hinn svonefnda Landspítalasjóðsdag þann 19. júní 1926.  

No comments:

Post a Comment