Monday, December 24, 2012

Íslandsmetið í maraþoni karla frá upphafi

3:10.15 Magnús Guðbjörnsson KR Reykjavík 29. ágúst 1926
3:04.40 sami Reykjavík 25. sept. 1927
2:53.06 sami Reykjavík 5.sept. 1928
3:01.02 Hafsteinn Sveinsson Selfossi Reykjavík 6. okt. 1957
3:51.04 Jón Guðlaugsson HSK Reykjavík 6. ágúst 1968
3:15.17 Högni Óskarsson KR Rochester ?? sept. 1975
3:05.38 sami Buffalo ?? 1975
2:53.03 sami Rochester ?? sep. 1976
2:50.56 sami Rochester ?? 1976
2:49.14 sami New York 25. okt 1977
2:38.29 Sigfús Jónsson ÍR Windsor 10. júní 1978
2:31.33 Sigurður P. Sigmundsson FH Reykjavík 20. sept. 1981
2:27.03 sami Wolverhampton 28. mars 1982
2:23.43 sami New York 23. okt. 1983
2:21.20 sami London 13. maí 1984
2:19.46 sami Berlín 29. sept. 1985
2:17.12 Kári Steinn Karlsson UBK Berlín 25. sept. 2011

aths.
Þótt sögur fari af miklum hlaupagörpum á öldum fyrri, eins og til að mynda Hlaupa-Manga af Melrakkasléttu, þá telst Magnús Guðbjörnsson fyrsti íslenski maraþonhlauparinn. Í ágústlok 1926 þreytti hann maraþon frá svonefndum 40 km vegarsteini á Hellisheiði að íþróttavellinum við Suðurgötu í Reykjavík, Melavellinum. Hér var ekki um fulla 42.195 metra langhlaup að ræða, hina hefðbundnu maraþonvegalengd, heldur 40,2 km. Vantaði því tvo km til fullrar lengdar.  

Magnús hljóp einu sinni hvort næstu tveggja ára, bæði frá fyrrnefndum steini, en síðasta maraþonhlaupi sínu lauk hann við Uppsali í Reykjavík. Hann er hér talinn með sem frumkvöðull maraþonhlaupa á Íslandi þótt ekki hafi hlaupið alveg eins langt og krafist er nú til dags. En gott þótti þetta í gamladaga.   

Þremur áratugum eftir að Magnús var á ferðinni hljóp Hafsteinn Sveinsson frá Kambabrún til Reykjavíkur. Hann hljóp sömu leið og var fjórum mínútum skemur en Magnús í förum. Hafsteinn hélt áfram og kláraði fullt maraþon og var sá árangur skráður sem Íslandsmet.

Líður nú áratugur röskur þar til næsti maður hleypur, sveitungi Hafsteins, Jón Guðlaugsson. Hann er sá fyrsti sem hefur og lýkur maraþoni á sama stað en um var að ræða Norðurlandameistaramót sem haldið var á Íslandi árið 1968. Hlaupið var frá Laugardalsvelli og sem leið lá suður fyrir Straumsvík áður en snúið var til baka.

Úr þessu fóru vinsældir almenningshlaupa vaxandi og skokkarar að taka þátt í maraþonhlaupum, ekki síst íslenskir námsmenn í Bandaríkjunum. Frumherji á þessu sviði var Högni Óskarsson læknir. Varð hann fyrstur Íslendinga til að rjúfa þriggja stunda múrinn og bætti met Hafsteins. Setti Högni alls þrjú met í maraþonhlaupi.

Sigfús Jónsson, methafi í 5 og 10 km hlaupum, skellti sér í eitt maraþonhlaup á keppnisferlinum. Hljóp undir kastalaveggjum Elísabetar Bretadrottningar í Windsor og bætti metið um nær 11 mínútur. Við af honum tók svo Sigurður Pétur Sigmundsson sem á níunda áratugnum bætti metið aftur og aftur uns hann komst undir hinn fræga múr, 2:20 stundir, fyrstur Íslendinga. Sigurður Pétur er fyrsti íslenski hlauparinn sem leggur fyrir sig maraþonhlaup af einhverri alvöru. Liðu enda 26 ár þar til alvöru arftaki kom fram, eða þar til Kári Steinn Karlsson sneri sér að þessari keppnisgrein og sló met hans í fyrra, 2011.

Kári Steinn vann síðan hug og hjörtu íþróttaunnenda með góðri frammistöðu í maraþonhlaupinu á ólympíuleikunum í London sl. sumar. Eins og Sigfús hafði Kári Steinn sett Íslandsmet í 5 og 10 km hlaupum áður en hann lagði fyrir sig enn lengri hlaup. Hann er fyrsti íslenski karlinn til að keppa í maraþoni á ólympíuleikum. Var hann klukkutíma fljótari í förum í þolrauninni en fyrsti maraþonhlauparinn, Magnús Guðbjörnsson.


No comments:

Post a Comment