Thursday, December 6, 2012

Íslandsmetin í hástökki karla frá upphafi

1,48 Kári Arngrímsson Þing. Akureyri 17. júní 1909
1,48 Sturla Jónsson Þing. Akureyri 17. júní 1909
1,48 Magnús Ármannsson ÍR Melavelli 18. júní 1911
1,50 Skúli Ágústsson Umf.Hrunam. Melavelli 20. júní 1914
1,55 Ósvald Knudsen ÍR Melavellli 5. sept. 1920
1,60 sami Melavelli> 18. júní 1921
1,65 sami Melavelli 21. júní 1922
1,67 sami Melavelli ?? ???? 1922
1,70 sami Melavelli 21. júní 1923
1,70 Helgi Eiríksson ÍR Melavelli 18. júní 1927
1,72 sami Melavelli 7. ágúst 1927
1,75 sami Melavelli 6. júní 1930
1,80 sami Kaupmannahöfn 11. júlí 1927
1,80 Sigurður Sigurðsson KV Melavelli 18. júní 1936
1,81 sami
27. júlí 1937
1,82 sami ÍR
19. júní 1938
1,85 sami
24. ágúst 1938
1,93 Skúli Guðmundsson KR
19. júní 1944
1,94 sami 12. ágúst 1944
1,95 sami Kaupmannahöfn 19. júní 1949
1,96 sami Melavelli 4. júlí 1950
1,97 sami Kaupmannahöfn 30. júlí 1950
1,98 Jón Pétursson KR Melavelli 15. maí 1960
1,98 sami Ósló 20. júlí 1960
2,00 sami Laugardal 6. ágúst 1960
2,01 Jón Þ. Ólafsson ÍR Rostock 9. júlí 1961
2,03 sami Rostock 9. júlí 1961
2,04 sami ÍR-mót 19. júlí 1962
2,05 sami ÍR-mót 5. okt. 1962
2,06 sami Álasundi 9. ágúst 1963
2,07 sami Melavelli (á grasi) 15. maí 1965
2,10 sami Melavelli (á grasi) 15. maí 1965
2,11 Kristján Hreinsson UMSE Alta Noregi 9. júlí 1983
2,12 Unnar Vilhjálmsson UÍA Keflavík 14. júlí 1984
2,15 Gunnlaugur Grettisson ÍR Schwechat Austurr. 15. júní 1988
2,16 Einar Kristjánsson FH Mosfellsbæ 25. júlí 1992
2,17 Einar Karl Hjartarson ÍR Laugardal 25. júlí 1998
2,18 sami Annecy Frakkl. 30. júlí 1998
2,22 sami Torrevieja Spáni 3. apríl 1999
2,25 sami San Marino 2. júní 2001






Fyrsta hástökksmetið sett á Akureyri

Fyrsta skráða Íslandsmetið í hástökki er eignað Þingeyingnum Kára Arngrímssyni frá Ljósavatni en hann stökk 1,48 metra „í loft upp“ á móti á Akureyri 17. júní 1909. Í besta falli virðist metaskráning í öndverðu duttlungum háð, því sömu hæð stökk Sturla Jónsson frá Jarlsstöðum í Bárðardal. Var það talið Kára til framdráttar að hann stökk upp jafnfætis – með einu tilhoppi á undan - og því gert betur en Sturla, sem stökk með tilhlaupi! Báðir hlutu þó fyrstu verðlaun.

   Á þessum tíma höfðu Íslendingar í vesturheimi keppt árum saman í hinum ýmsu íþróttum, þar á meðal hástökki, á Íslendingadeginum. Upplýsingar liggja þó ekki á lausu um stökkhæð, hvort hún hafi verið meiri eða minni en á fyrstu mótum á ættjörð vesturfaranna.

   Hástökks hér á landi er að líkindum fyrst getið í blaðinu „Þjóðhvellur“ sem segir frá skemmtiferð hins Íslenska kvenfélags, sem farin var út á Seltjarnarnes sunnudaginn 9. september 1906, en þar segir m.a. svo:

   „Fór það fótgangandi þann óraveg,  að slíks eru örfá dæmi. Eftir langa göngu og stranga nam það loks staðar þar sem heitir Melshúsatún á Seltjarnarnesi, - er það fyrir vestan alla vegu. Voru þar skemmtanir ýmiss konar, hástökk og langstökk, ofið vaðmál og stokkið í skörðin, sungið, trallað og lallað: var það hin ágætasta skemmtun.“

   Næsta met sem skráð var af Íþróttasambandi Íslands (ÍSÍ) var metjöfnun Magnúsar Ármannssonar, „menntaskólapilts úr Íþróttafélagi Reykjavíkur. Hann hljóp 1,48 stiku í loft,“ sagði blaðið Ísafold. Í kalsaveðri, rigningu og súld, stökk  Magnús 1,48 m hinn 20. júní 1911, á leikmóti UMFÍ í Reykjavík, en það telst fyrsta landsmót sambandsins.

   Á leikmótinu 1914 á Melavelli var aðeins einn utanbæjarmaður meðal keppenda. Fundu fjölmiðlar að þessari litlu aðsókn utan úr sveitum. En þessi eini aðkomni keppandi, Skúli Ágústsson frá Birtingaholti, gekk af hólmi með nýtt Íslandsmet í hástökki; stökk 1,50 metra. Þetta viðurkennda met stóð í sex ár, eða þar til Ósvaldur Knudsen ÍR bætti það í 1,55 árið 1920 og 1,60 ári seinna. Ósvald var einráður í greininni um árabil og átti eftir að verða skráður fyrir þremur metum til viðbótar; 1,65 og 1,67 árið 1922 og 1,70 árið 1923. 

   Án þess að nokkur skýring hafi á því fundist var einhverra hluta vegna árangur tveggja „gagnfræðinga“ úr Suður-Þingeyjarsýslu á leikmóti Norðlendingafjórðungs, sem fram fór 2. júlí 1910 á Húsavík, ekki skráður í metabækur. Stukku báðir yfir 1,62 metra; Jónas Þorbergsson á Breiðumýri  og Sigfús Hallgrímsson Vogum. Í fjölmiðlum var tekið fram, að báðir væru gagnfræðingar og kann skólavistin að skýra að einhverju hina miklu stökkfimi þeirra. Þessi óskráðu en góðu og gildu „metstökk“ voru ekki bætt fyrr en Ósvaldur stökk 1,65 á Melavelli 1922.

   Ef til vill var aldrei sótt um staðfestingu á metum þessum. Um það verður ekkert sagt en spyrja má hvers vegna ÍSÍ hafi ekki átt frumkvæði að því þar sem heimildir um mótið voru fyrir hendi? Sú spurning á rétt á sér þar sem svo virðist sem ÍSÍ hafi tekið upp hjá sér að skrá met að eigin frumkvæði og það jafnvel frjálslega. Dæmi eru um met frá þessum tíma í langstökki í miklu hvassviðri sem var staðfest á þeirri forsendu að viðkomandi hefði haft atgervi til að stökkva svo langt í logni!  Og misjafnt er hvernig tekið var á metárangri sem unnin var í útlöndum. Deilt var um hvort skrá ætti sem Íslandsmet árangur utan landsteinanna. En sumt var skráð annað ekki.

   Þannig var látið hjá líða að skrá nokkur met Helga Eiríkssonar sem réði lögum og lofum í greininni undir lok þriðja áratugarins. Hann stökk til að mynda 1,80 m og varð í öðru sæti á miklu alþjóðlegu móti í  Kaupmannahöfn 11. júlí 1927. Stökk hann meir að segja tvívegis yfir þá hæð því að í fyrra skiptið bilaði naglinn sem hélt uppi listanum sem ráin hvíldi á og féll ráin því eftir á og  stökkið ekki tekið gilt. Gerði Helgi sér lítið fyrir og stökk aftur sömu hæð er bilunin hafði verið lagfærð. Afrek þetta var ekki bætt fyrr en áratug seinna. Skömmu fyrir Kaupmannahafnarferðina hafði Helgi stökkið 1,70 metra á fyrsta meistaramóti Íslands og þar með jafnað met Ósvalds Knudsen frá 1923.

  Auk þessa mets Helga í Kaupmannahöfn eru heimildir fyrir því, að í Vestmannaeyjum árið 1926 hafi Páll nokkur Scheving stokkið 1,82 metra. Afrekið hafi þó ekki verið viðurkennt vegna þess að hann fór yfir rána með höfuðið á undan (veltu, grúfu), sem þá var ólöglegt. Mátti höfuðið ekki vera neðar sitjandanum er farið var yfir rána. Þessi aðferð var síðar leyfð og var eingöngu notuð í áratugi, eða þar til Fosbury-aðferðin náði yfirhöndinni.

   Páll stökk einnig 1,70 metra á Þjóðhátíðarmótinu í Eyjum 14. ágúst 1925 og sagður hafa jafnað þar Íslandsmet sitt. Hið rétta er að skráða metið þá var í eigu Ósvalds Knudsen ÍR frá 1923 og hæðin 1,70 en árangur Páls var ekki staðfestur sem metjöfnun. 

   Í kjölfar einræðis Ósvalds og Helga í hástökkinu kemur þriðji afburðarmaðurinn til sögunnar á miðjum fjórða áratugnum, Sigurður Sigurðsson frá Vestmannaeyjum, sem keppti undir það síðasta undir merkjum ÍR.

   Óhætt er að segja að Sigurður hafi slegið í gegn þegar hann setti sitt fyrsta met, 1,80 metra. Það gerði hann á Allsherjarmótinu 18.júní 1936 að viðstöddum Danakonungi sem var ásamt drottningu viðstaddur mótið. Færði hann ÍSÍ forkunnarfagran silfurbikar sem veittur skyldi fyrir besta afrek mótsins hverju sinni. Auk þess gaf drottning 1000 kr. í peningum til eflingar íþróttanna. Í þakklætisskyni hrópuðu viðstaddir nífalt húrra fyrir konungshjónunum

   Mesti mannfjöldi, sem nokkurntíma hefir sést á Íþróttavellinum horfði á mótið. Troðningur var mikill og töldu kunnugir, að 10 – 15 þúsund manns hafi verið viðstaddir.

   Og þegar rýnt var í stigatöflur að keppni lokinni kom í ljós, að hástökksmet Sigurðar var besta afrek mótsins. Fyrir það fékk hann 786 stig eða 59 stigum meira en Kristján Vattnes KR fékk fyrir kúluvarpsmet sama daginn. Hlaut Sigurður því bikarinn til varðveislu fram að næsta móti. Hann bætti sex ára gamalt met Helga Eiríkssonar um 5 sentimetra. Metstökkið er  athyglisvert í ljósi þess, að kalt var í veðri, austanstrekkingur allt kveldið og hiti af sól enginn. Áhorfendur voru hríðskjálfandi þótt þétt stæðu og óskuðu þess margir, að þeir hefðu heldur setið heima. Þóttu aðstæður ef eitthvað er hafa dregið úr afrekum íþróttamannanna.

   Veður var heldur ekki hagstætt til keppni, fremur kalt, er bæjarkeppni Reykjavíkur og Vestmannaeyja og Svíamótið svonefnda hófst þriðjudaginn 27. júlí 1937. Engu að síður fór þá fram fjörugasta leikmót sem á íþróttavellinum hafði farið fram. Og unninn besti árangur, sem náðst hefur hér á landi. Alþýðublaðið sagði að mótið hafi verið fyllilega sambærilegt við betri leikmót í öðrum löndum. En ólíkt Allsherjarmótinu árið áður var þetta mót illa sótt. Áhorfendur voru svo fáir, að til hneisu er fyrir Reykvíkinga og sýnir að enn er mikið starf fyrir höndum að kenna Reykvíkingum að meta útiíþróttir, sagði Morgunblaðið.

   Á móti þessu voru sett fjögur Íslandsmet í tilþrifamikilli og skemmtilegri keppni en slíkt hafði ekki gerst áður á einu og sama mótinu á Íslandi. Þótt tveir næstu menn stykkju 1,71 þurfti Sigurður ekki að hafa ekki mikið fyrir sigri. Stökk hann 1,75 metra í sjálfri keppninni en í sérstökum aukastökkum í tilraun til að setja met lyfti hann sér yfir 1,81 metra. Bætti þar með met sitt frá árinu áður um einn sentimetra. Nokkrir sænskir frjálsíþróttamenn tóku þátt í mótinu og áttu þeir sinn þátt í að lífga upp á keppnina.

   Þegar Reykvíkingar vöknuðu 17. júní 1938 var veður afleitt, rigning mestan hluta dagsins og rok svo mátti heita ófært um bæinn á stundum. Var mótinu því frestað um tvo daga en þá var veðurlag eins og oft hefur viljað loða við þjóðhátíðardaginn; hellirigning. Þetta hafði þær afleiðingar, að fátt áhorfenda sótti mótið, og einnig mun rennblautur völlurinn og kuldinn hafa dregið úr afrekum keppenda. Sigurður Sigurðsson var sá eini sem setti met, bætti tveggja ársgamalt met sitt um seinn sentimetra og stökk 1,82 m. Má það kallast vel af sér vikið í því veðri sem var á mótinu.  
 
   Nokkrum dögum fyrir meistaramótið, eða 24. ágúst, var Sigurður að æfa sig út á Íþróttavellinum. Gerði hann sér lítið fyrir og stökk þremur sentimetrum hærra en metið frá í júní, eða 1,85 m. Og lét ekki staðar numið heldur reyndi við 1,90 m og sögðu fjölmiðlar að mjög litlu hafi munað í tvö skipti að það tækist. Þó að þetta afrek væri unnið utan móts, voru löglegir dómarar viðstaddir. Mældu þeir stökkin skilmerkilega og fékkst afrekið því viðurkennt sem met.

   Loks gerði Sigurður enn á ný tilraun til að bæta um betur á MÍ en felldi 1,88 metra naumlega. Fór þó ekki tómhentur heim því met setti hann í hástökki án atrennu, stökk 1,41 m.

   Sex ár liðu þar til Sigurður sló met Helga Eiríkssonar í hástökkinu og síðasta met hans sjálfs stóð einnig í sex ár. Þá kom fram nýr hástökksrisi, Skúli Guðmundsson KR. Bætti hann met Sigurðar svo um munaði á Melavellinum 19. júní 1944, eða um átta sentimetra, úr 1,85 í 1,93 metra. Gunnar Huseby setti Norðurlandamet í kúluvarpi á mótinu – 15,23 metra – og sögðu fjölmiðlar met þeirra Skúla tvö glæsilegustu met sem nokkurn tíma hafa verið sett á Íslandi.

   Á meistaramóti Íslands tæpum tveimur mánuðum seinna bætti Skúli met þetta um einn sentímetra í 1,94 m. „Hann stökk yfir hæðina í mjög kröftugu og fallegu stökki og virtist ekki taka það neitt nærri sér. Síðan var hækkað upp í 1.97 m. og feldi hann þá hæð, en miklu munaði ekki að hann færi yfir hana,“ sagði Morgunblaðið um afrekið. Tilgreint var sérstaklega að Skúli hefði stokkið hærra en sigurvegarinn á sænska meistaramótinu. Með afreki sínu var Skúli og kominn í fremstu röð á norrænan mælikvarða.

   Fimm ár líða þó þar til hann bætir sig. Hafði hann þá verið vetrarlangt í námi í Kaupmannahöfn. Stökk hann 1,95 metra í fyrstu tilraun í keppni milli liðs borgarinnar og liðs  landsbyggðarinnar á íþróttaleikvanginum á Austurbrú, en á þeim leikvangi hefur margur íslenskur frjálsíþróttamaðurinn afrekað glæsilega fyrr og síðar. Skúli sigraði í hástökkinu – næstu menn stukku 1,80 – og vann mesta afrek mótsins.   

   Skúli kom heim til Íslands til þátttöku í landskeppni við Dani á Melavelli í byrjun júlí 1950. Hafði hann ekki sést á leikvangi hér á landi all lengi og fýsti marga að sjá hann keppa aftur. Ekki þótti það verra í aðdraganda keppninnar við Dani er spurðist að hann hefði stokkið manna hæst um sumarið í Danmörku. Veður var dágott er keppnin fór fram, stinningskaldi, en þurrt veður, og að vísu ekki hlýtt. Og enginn var svekktur af hástökkinu þótt Danirnir féllu snemma úr, komst hvorugur þeirra yfir 1,75 m. Skúli átti auðvelt með allar hæðir upp í 1,90 og eftir að hafa vippað sér yfir þá hæð lét hann hækka rána í nýja methæð, 1,96 metra.   Skúli felldi í tveimur fyrstu tilraununum, en í þeirri þriðju skeði það. Hann flaug yfir. „Þessi glæsilegi íþróttamaður hefir klifið enn einn hjallann í áttina að tveimur metrunum,“ sagði Morgunblaðið daginn eftir.

   Það varð hlutskipti annarra en Skúla að rjúfa tveggja metra múrinn í hástökkinu. En hann hafði þó ekki sagt sitt síðasta. Sumarið 1950 var hann valinn til að keppa fyrir Kaupmannahöfn í keppni borgarinnar við úrvalslið Smálandanna í Svíþjóð. Hafði það valdið nokkurri gagnrýni í dönskum blöðum hvort velja ætti útlendinga sem fulltrúa í keppni milli landa eða landshluta. Það lét Skúli ekki á sig fá heldur sigraði og bætti metið frá í landskeppninni á Melavelli um sentímetra, í 1,97 m. Gaf það nákvæmlega 1000 stig samkvæmt finnsku stigatöflunni svonefndu sem öll afrek voru miðuð út frá á þessum tíma.

   Til gamans má geta, að Skúli var valinn fyrirliði íslenska frjálsíþróttalandsliðsins sem lagði Norðmenn og Dani að velli í Ósló í lok júní 1951. Er það með stærstu sigrum Íslendinga í frjálsum. Fyrirliðinn fór á undan með góðu fordæmi því hann vann sína grein í keppninni. Árið áður var Skúli var valinn til keppni á Evrópumeistaramótinu í Brussel 1950, en þangað komst hann þó ekki vegna meiðsla. Þar gerðu íslenskir frjálsíþróttamenn strandhögg svo um munaði og hefði verið fróðlegt að sjá hvernig Skúli hefði komið frá mótinu en hann var í 10. til 15. sæti á afrekaskránni með 1,95 metrana.

   Að því kom að tveggja metra múrinn var rofinn í hástökkinu. Á fyrsta opinbera frjálsíþróttamóti sumarsins 1960 – vormóti ÍR hinn 15. maí – hnekkti Jón Pétursson KR tíu ára gömlu meti Skúla Guðmundssonar. Stökk 1,98 m og bætti metið um sentímetra. Þótti þetta met Jóns og fleiri afrek á mótinu sýna að frjálsíþróttamenn myndu setja sterkan svip á íþróttalíf sumarsins, eins og raunin varð. Aðstæður voru erfiðar, sandfok um allan völl og allsterkur vindur, en þær aðstæður komu ekki í veg fyrir góðan árangur.

   Hástökkið var síðasta keppnisgrein langs móts. En fólk beið spennt – og beið ekki til einskis. Jón fór leikandi létt 1,80, 1,85 og 1,90 og lét hækka í 1,98. Í fyrstu tveimur tilraunum sínum felldi hann þá hæð. Uppstökkspunkturinn enda mjög laus og jók það á erfiðleikana sem veðrið skapaði. Vegna hvassviðrisins urðu starfsmenn að halda slánni af og til. En í þriðju tilraun fór Jón örugglega yfir með sínum sérkennilega veltustíl. Þar með var einu elsta meti frjálsíþróttanna hnekkt. Þetta kom ekki mjög á óvart þar sem Jón hafði á æfingum margsinnis stokkið hærra en met Skúla var. Hann átti og ágætar tilraunir við tvo metrana en varð að bíða aðeins eftir þeirri hæð.

    Eftir fyrri dag landskeppni á Bislet í Ósló 20. júlí 1960 þótti árangur Íslendinga einstaklega rýr. Þar leiddu saman hesta sína landslið Íslands, Belgíu og Danmerkur og þrjú Noregslið. Besti árangur fjórða sætið og síðasta sætið í fimm greinum þegar komið var að lokagreininni, hástökkinu. Gerði Jón Pétursson sér lítið fyrir og sigraði. Jafnaði ríflega mánaðargamalt met sitt í leiðinni. Reyndi við tvo metra en tókst ekki. Var þetta eini ljósi punkturinn í keppni fyrri dags og kærkominn sigur því annars hefði dagurinn verið hryllilegur fyrir íslenska liðið. Tiltekið var í fréttum frá Noregi, að þetta hafi verið fyrsti sólskinsdagurinn í Ósló í fjórar vikur; þar hafi verið að heita mátti látlaus rigning vikum saman.

   Laugardagurinn 6. ágúst 1960 mun lengi teljast með þeim merkustu í sögu frjálsíþróttanna vegna afreka sem unnin voru á fyrsta degi meistaramótsins á Laugardalsvelli. Þar tókst Jóni Péturssyni að rjúfa draumamúrinn og stökkva yfir 2,00 metra. En fáa hefði grunað, að þegar fyrsti Íslendingurinn stykki yfir tvo metra í hástökki, myndi það afrek hverfa fyrir öðrum á sama móti. Óumdeilanlega skyggði 16,70 metra stökk Vilhjálms Einarssonar ÍR í þrístökki á allt annað. Með þeim afburða árangri jafnaði hann gildandi heimsmet.

   Mótið var síðasta tækifæri Jóns Péturssonar til þess að ná lágmarki fyrir Ólympíuleikana í Róm. Hann hafði áður verið nærri því en aldrei tekist. Fáir gerðu ráð fyrir því, að Jón hefði möguleika til þess að sigrast á lágmarkinu á Laugardalsvellinum þar sem atrennubrautin i hástökkinu var ekki talin góð. Hún var þó lagfærð síðustu daga fyrir mótið. Jón sýndi mikið öryggi og fór yfir 1,90 m. og 1,95 m. leikandi létt. Ráin var því nœst sett á nýja methœð, tvo metra. Í fyrstu tilraun felldi Jón þessa hæð, en í annarri tilraun sveif hann yfir tvo metrana og fór vel yfir. Hann átti síðan þrjár tilraunir við 2,03 og var mjög nærri því að fara yfir í annarri tilraun. Var allur kominn yfir rána en stökkfóturinn var of seinn upp og  felldi. En með metstökkinu var farmiðinn til Rómar  tryggður.

   Í öðru sæti á eftir Jóni í þessari sögulegu keppni varð annar íþróttamaður er átti eftir að bæta metið stórum skrefum á næstu árum.  Þar ræðir um Jón Þ. Ólafsson ÍR sem var fremsti hástökkvari landsins á sjöunda áratugnum og fram á þann áttunda, en hann varð Íslandsmeistari 10 ár í röð, 1961-70. Síðasta met Jóns Þ. er það lífseigasta í sögu hástökksmetanna, stóð í 19 ár. Undirstrikar það sem áður segir um lélega atrennubraut á Laugardalsvelli, að ekkert fimm meta sinna utanhúss setti Jón þar.

   Jón Þ., eins og hann hefur alltaf verið kallaður, var aðeins tvítugur er hann lét að sér kveða svo um munaði. Vettvangurinn var Eystrasaltsvikan í Rostock í Austur-Þýskalandi, 9. júlí 1961. Stökk þar sjö sentimetrum hærra en hann hafði áður stokkið og bætti tæplega ársgamalt Íslandsmetið um þrjá sentimetra, stökk 2,03 m. Það þótti hafa legið í loftinu að Jón myndi slá metið en kannski ekki svo mikið í einu. Hann hafði stokkið yfir tvo metra innanhúss um veturinn og vakti það vonir sem rættust í Rostock. En aðstæður voru ekki glæsilegar, hástökksgeirinn undir vatni vegna mikillar rigningar er mótið fór fram. Jón sigraði samt með yfirburðum við mikinn fögnuð áhorfenda; stökk allar hæðir – 1,80 m., 1,85 m., 1,90 m.,  1,95 m. og 2,01 – í fyrsta stökki. Yfir methæðina fór hann í þriðju tilraun. Meðal þeirra sem lágu í valnum var þýski meistarinn Durkopf sem nýlega hafði stokkið 2,09 en komst ekki hærra en 1,90 í þetta sinn. 

   Leynivopn Jóns Þ. við hinar erfiðu aðstæður í þessari keppni var stutt atrenna. Beitti hann því bragði að taka aðeins þrjú skref í aðhlaupinu á minni ferð og vippa sér síðan upp til atlögu við rána.  Keppinautarnir tóku hins vegar fulla atrennu og er þeir komu askvaðandi í uppstökkið gátu þeir ekki bremsað sig af við stökkdýnuna og klúðruðu hverri stökktilrauninni af annarri. 

   Jón Þ. hafði engan veginn sagt sitt síðasta orð. Melavöllurinn var honum ætíð kær og annað met hans sá þar dagsins ljós á ÍR-móti í júlí 1962. Stökk hann 2,04 og bætti metið ársgamla um einn sentimeter. Hann fór hátt yfir í fyrstu tilraun. Lét svo hækka rána í 2,07 en mistókst að þessu sinni. Jón byrjaði á 1,92 og fór yfir í fyrstu tilraun, síðan 1,98 í annarri og var þá hækkað í nýju methæðina, sem lá í fyrstu atrennu. Með metinu sigraðist hann á lágmarki til þátttöku í Evrópumeistaramótinu sem fram fór þetta haust í Belgrad í Júgóslavíu.

   Þetta ár var Jón Þ. Ólafsson í mjög góðri æfingu og til alls líklegur langt fram á haust. Blíðviðri var á Melavelli á ÍR-móti í byrjun október, léttur landsynningur og léttskýjað, er hann reyndi á ný við met. Eftir fjögur stökk sá nýtt met dagsins ljós, 2,05 metrar. Yfir byrjunarhæðina, 1,93 m., fór hann í fyrstu tilraun, yfir 2,00 í annarri og flaug svo glæsilega yfir 2,05 í fyrstu tilraun. Enn á ný reyndi Jón við 2,07 en tókst heldur ekki í þetta sinn.

   Íslenska landsliðið háði keppni við lið Vestur-Noregs í Álasundi í ágúst 1963 og fengu laka útreið. Lýstu fjölmiðlar keppninni sem einhverri mestu háðung sem íslenskir frjálsíþróttamenn hefðu orðið fyrir. Tapaði liðið fyrir því norska með 39 stiga mun, 120-81. En eitt stóð upp úr – hið eina sem hægt var að hrópa húrra fyrir – og það var frammistaða Jóns Þ. Lét hann erfiðar brautir ekki aftra sér um of – rignt hafði í Álasundi þrjá daga í röð – og sveif yfir 2,06 metra.

   Þessi árangur Jóns átti sinn þátt í að hann var valinn íþróttamaður ársins 1963 af samtökum íþróttamanna. Hlaut 64 stig en næsti maður 56. Árið áður varð Jón annar að stigum í þessu vali og varð auk þess nokkrum sinnum framarlega í kjörinu. Þetta met sitt jafnaði Jón svo síðsumars 1964 á móti í Borås í Svíþjóð og tryggði sér í leiðinni þátttöku í ólympíuleikunum í Tokyo í Japan. Fleiri viðurkenningar bættust á þessu ári því Íþróttasamband Íslands (ÍSÍ) sæmdi Jón sérstöku metamerki sambandsins fyrir að hafa sett 13 Íslandsmet í hástökki árið 1962. Þar á meðal setti hann Norðurlandamet í hástökki með atrennu innanhúss, 2,11 metra. Var það besti árangur í Evrópu og sá næstbesti í heiminum.  Loks vann Jón besta afrek þjóðhátíðarmótsins og var því handhafi forsetabikarsins árið 1963.

(framhald síðar . . . )
 

No comments:

Post a Comment