Thursday, February 7, 2013

Íslandsmetin í enskri mílu karla frá upphafi

4:40.4 Sigurgeir Ársælsson Á Melavelli 8. júlí 1941
4:37.0 Stefán Gunnarsson Á Melavelli 23. sept 1948
4:25.8 Óskar Jónsson ÍR Glasgow 27. júní 1949
4:21.4 Pétur Einarsson ÍR Bislet 1. sept 1950
4:15.8 Svavar Markússon KR Melavelli 13. júlí 1956
4:13.8 sami Melavelli 21.júní 1957
4:10.7 sami Gautaborg 26. ágúst 1957
4:07.1 sami Gautaborg 22. sept 1957
3:57.63 Jón Diðriksson UMSB Koblenz 25. ágúst 1982

Aths.

Ensk míla var hlaupin í fyrsta sinn, að því er næst verður komist, á Melavellinum þriðjudaginn 27. júlí 1937. Eiginlega var um 1500 metra hlaup að ræða í bæjarkeppni Reykjavíkur og Vestmannaeyja, en sænskur hlaupari, O. Bruce, veitti hinum íslensku forgjöf með því að byrja 109 metrum aftan við þá, þ.e. hlaupa heila mílu. Varð hann annar í mark, hljóp míluna á 4:23,8 mín. og komst fram úr öllum nema Eyjamanninum Jóni Jónssyni sem hljóp 1500 metrana á 4:20,0 mín.

Hið athyglisverða við árangur Jóns Jónssonar, er að tími hans var sá besti, sem náðst hafði hér á landi í 1500 metra hlaupi, því Geir Gígja setti met sitt, 4:11 mín., í Kaupmannahöfn.

Fyrsta raunverulega keppnin í einnar enskrar mílu hlaupi (1609,35 metrar) fór fram í tengslum við lokaleik fyrsta Íslandsmótsins í útihandknattleik kvenna á Melavellinum. Mótinu lauk með sigri Akureyrarstúlknanna úr Þór. Aldrei var sótt um staðfestingu á afrekinu sem meti. Sex menn tóku þátt í hlaupinu, en á eftir Sigurgeiri Ársælssyni urðu Evert Magnússon Ármanni á 4:47,2 mín., Árni Kjartansson Ármanni á 4:47,8 mín., Indriði Jónsson KR á 4:48,2 mín., en ekki er getið um tíma Gunnars Sigurðssonar ÍR og Harðar Hafliðasonar Á.

Ágúst Ásgeirsson hjó nærri metinu í Southampton í Englandi 22. maí 1977, hljóp á 4:08,4 mín. Brynjúlfur Heiðar Hilmarsson UÍA hljóp á 4:10,11 í Gautaborg 12. maí 1986 og Sveinn Margeirsson á 4:11,23 í Austin í Texas 3. apríl 1999.

Er Svavar setti fyrsta metið var Sigurður Guðnason ÍR einnig undir því gamla, hljóp á 4:17,8 mín.

Árangur Jóns Diðrikssonar í míluhlaupinu er í algjörum sérflokki en hann náði honum á öflugu alþjóðlegu móti í Þýskalandi. Bætti hann metið í einni svipan um tæplega 10 sekúndur. Er Jón eini Íslendingurinn sem hlaupið hefur þessa vegalengd á undir fjórum mínútum. Og gerði nokk betur en Roger Bannister sem fyrstur varð undir múr þennan, hljóp á 3:59,4 í Oxford í Englandi 6. maí 1954.
 

No comments:

Post a Comment