Tuesday, April 9, 2013

Íslandsmetið í spjókasti beggja handa

62,49 (39,03 + 23,46 ) Tryggvi Gunnarsson Á Melavellli 18. júní 1922
64,24 Helgi Eiríksson ÍR Melavelli 23. sept 1923
65,40 (39,84 + 25,56) Helgi Eiríksson ÍR Melavelli 17. júní 1924
68,42 (39,17 + 29,25) sami Melavelli 14. sept 1924
72,40 (42,16 + 30,24) sami Melavelli 25. sept 1926
77,83 (45,55 + 32,28) Friðrik Jesson Týr Melavelli 14. ágúst 1929
79,41 (47,13 + 32,28) sami Melavelli 14. ágúst 1929
84,02 (48,58 + 35,44) sami Eyjum 7. ágúst 1931
91,45 (52,65 + 38,80) Adolf Óskarsson Týr Eyjum 22. júní 1947
92,75 (54,22 + 38,53) sami Eyjum 6/7 ágúst 1948
97,77 (59,00 + 38,77) sami 21. ágúst 1948
99,02 (66,99 + 32,03) Jóel Sigurðsson ÍR Melavelli 23. júní 1949
101,74 (62,72 + 39,02) Valbjörn Þorláksson ÍR Melavelli 20. okt. 1961

Aths.


Um þessa grein er hið sama að segja og um aðrar kastgreinar beggja handa, að hún lagðist meira og minna af sem keppnisgrein um miðja síðustu öld, bæði hér á landi sem annars staðar. Síðasta metið, rúmum áratug seinna, kemur því hálfvegis eins og út úr kú!

Keppt var í spjótkasti beggja handa einu sinni á ólympíuleikum, í Stokkhólmi 1912. Finnar sigruðu þrefalt, en hefði aðeins betri höndin gilt hefðu silfur- og bronsmennirnir ekki komist á pall þar sem fjórir aðrir köstuðu lengra með betri hendi en þeir! Sigurvegarinn kastaði 109,42 metra, annað sæti fékkst með 101,13 m kasti og bronsmaðurinn kastaði 100,24. Til samanburðar er Íslandsmet Valbjörns Þorlákssonar frá 1961 101,74 metrar.

Í keppni kasta menn þrisvar með betri hendi og þrisvar með þeirri lakari og gildir lengsta kast með hvorri hendi við útreikning heildar kastlengdar.

Þegar Helgi kastaði 68,42 á Leikmóti ÍR 13. – 14. september 1924 á Melavellinum var Friðrik Jessen, Tý, einnig yfir gamla metinu með 67,21 m.

Á listanum er að finna tvö met skráð á Friðrik sama daginn árið 1929, á Meistaramóti Íslands. Hið fyrra (77,83) var raunveruleg niðurstaða keppninnar en var þó ekki staðfest á sínum tíma. Eins og algengt var er met lágu fyrir notaði hann stemmninguna til að gera atlögu að meti með betri hendi sem honum heppnaðist það. Var þá sá árangur, líklega ranglega, talinn með í keppni beggja handa, sem var áður lokið og samlagningin út úr því staðfest sem met (79,41). Friðrik átti eftir að bæta þennan árangur verulega, eða í 84,02 metra á  Meistaramóti Íslands, sem haldið var í Vestmannaeyjum í byrjun ágúst 1931.

Annar Vestmannaeyingur, Adolf Óskarsson, átti eftir að taka upp þráðinn þar sem Friðrik sleppti honum og halda merki Eyjamanna í frjálsíþróttum á lofti.  

Þegar Jóel Sigurðsson setti met sitt var betri handar kast hans jafnframt Íslandsmet, 66,99 metrar, sem stóð í aldarfjórðung. Var það vallarmet á Melavelli og hið sama er að segja um metið í spjóti beggja handa. 
 

No comments:

Post a Comment