Monday, April 1, 2013

Íslandsmetið í 100 metra hlaupi karla frá upphafi

12,5 Helgi Jónasson ÍR Melunum 2. ágúst 1909
11,6 Jón Halldórsson ÍR Melunum 5. júní 1910
11,8 Kristinn Pétursson ÍR Melavelli 20. júní 1911
12,0 Tryggvi Gunnarsson Á Melavelli 28. ágúst 1920
12,0 Þorkell Þorkelsson Á Melavelli 27. ágúst 1921
11,4 Garðar S. Gíslason ÍR Melavelli 17. júní 1926
11,3 sami Melavelli 25. sept 1926
11,3 Helgi Eiríksson ÍR Melavelli 17. júní 1927
11,0 Garðar S. Gíslason KR Melavelli 15. sept 1934
11,0 Sveinn Ingvarsson KR Melavelli 27. júlí 1937
10,9 sami Melavelli 10. júlí 1938
10,9 Finnbjörn Þorvaldsson ÍR Akureyri 6. júlí 1945
10,8 sami Ósló 7. ágúst 1946
10,7 sami Melavelli 12. ágúst 1947
10,6 Haukur Clausen ÍR Melavelli 27. júní 1948
10,6 Finnbjörn Þorvaldsson ÍR Stokkhólmi 11. sept 1949
10,5 sami Melavelli 18. sept 1949
10,5 Ásmundur Bjarnason KR Melavelli 17. júní 1952
10,5 sami ?? ?? 1954
10,5 sami Melavelli 27. ágúst 1955
10,5 Hilmar Þorbjörnsson Á Frechen Þý. 29. júlí 1956
10,4 sami Melavelli 4. júlí 1957
10,3 sami Melavelli 18. ágúst 1957
10,3 Vilmundur Vilhjálmsson KR Troisdorf Þý 5. júlí 1977
10,3 sami Laugardalsvelli 7. ágúst 1977
10,3 Jón A. Magnússon UMSS LaGrange US 13. júlí 1996
10,57 Vilmundur Vilhjálmsson KR Sofia 18. ágúst 1977
10,57 Einar Þór Einarsson Á Ósló 14.sept. 1991
10,56 Jón A. Magnússon UMSS Götzis 31. maí 1997



Aths.
Fyrsta metið sem vitað er um í 100 metra hlaupi setti Helgi Jónasson sem kenndur var við bæinn Brennu, fyrir 104 árum, eða 1909. Hans verður þó fremur minnst í íþróttasögunni sem frumkvöðuls og aðalhöfundar Víðavangshlaups ÍR. Vinur Helga, Jón Halldórsson, bætti um betur og varð í Stokkhólmi 1912 fyrsti íslenski frjálsíþróttamaðurinn til að keppa á ólympíuleikum.

Einn af fyrstu methöfunum, Garðar S. Gíslason, setti met fyrst sem ÍR-ingur og síðar sem KR-ingur, en það hefur líklega heyrt til undantekninga að menn ráfuðu milli félaga á þriðja áratug síðustu aldar. Fyrsta met sitt setti Garðar í undanrásum á Allsherjarmótinu 1926 en í úrslitahlaupinu, sem hann vann einnig, misheppnaðist tímataka á öllum mönnum.

Á sínum tíma staðfest ÍSÍ aldrei árangur sem met ef gildandi met var jafngott, metjöfnun var ekki til þar á bæ. Þegar Brandur Brynjólfsson Ármanni hljóp á 10,9 sek. á 17. júnímótinu 1940, sem var sami tími og Íslandsmet Sveins Ingvarssonar frá 1938, var árangurinn ekki viðurkenndur ti lmets þar sem hlaupið var undan allsterkum vindi.

Sami tími Finnbjörns Þorvaldssonar ÍR á Akureyri 6. júlí 1945 er hafður hér með, en afrekið var talið ólöglegt, m.a. sakir þess að tímai var ekki tekinn á nægilega margar klukkur. Síðasta met Finnbjörns, 10,5 sek., stóð í átta ár en Ásmundur Bjarnason og Hilmar Þorbjörnsson jöfnuðu það uns sá síðarnefndi bætti um betur 1957.

Ásmundur jafnaði met Finnbjörns 1952, 1954 og 1955. Þrátt fyrir afar ítarlega leit hefur mér ekki tekist að finna dagsetningu metsins 1954. Það kom ekki á neinu af opinberu mótum sumarsins, en hugsanlega á innanfélagsmóti að þeim loknum, þ.e. í september eða október. Síðasta metjöfnunin átti sér stað á innafélagsmóti hjá KR.

Á einum stað í síðari tíma afrekaskrám er Hauki Clausen eignað 10,5 sek. hlaup árið 1951. Að því er best verður sé mun það eigi rétt því allar afrekaskrár samtímans segja 10,7 besta árangur hans í 100 metra hlaupi þetta ár. Hins vegar hljóp Haukur á 10,4 sekúndum í tugþraut 15. september 1951, en þar var meðvindur alltof of mikill.

Eftir að honum tókst að jafna met Finnbjörns og Ásmundar á móti í Þýskalandi 1956 var eins og losnaði um  Hilmar því hann tvíbætti metið á Melavelli sumarið 1957. Hljóp fyrst á 10,4 sek. og hálfum öðrum mánuði seinna á 10,3 sek.

Met Hilmar stóð óhaggað í tvo áratugi eða þar til Vilmundur Vilhjálmsson jafnaði það í Þýskalandi sumarið 1977 og aftur mánuði síðar á Meistaramóti Íslands á Laugardalsvelli. Vilmundur setti síðan  met með rafmagnstímatöku á heimsleikum stúdenta hálfum mánuði eftir seinni metjöfnunina, hljóp á 10,57 sek. Miðað við muninn sem talinn var á rafmagnstíma og tímum teknum á skeiðklukkur var handtíminn ennþá talinn ögn betri. Daginn áður hljóp Vilmundur enn betur í undanrás, eða á 10,46 sekúndum og það í 1,6 m/sek. mótvindi. Það var hraustlega gert og gæti það verið eitt allra öflugasta 100 metra hlaup Íslendings, en tímatakan var með þeim hætti að ekki var þessi mikli árangur staðfestur sem met.

Það fór með rafmet Vilmundar svipað og síðasta met Hilmars, að það stóð í 20 ár, eða þar til Jón Arnar Magnússon hljóp á 10,56 og bætti það um einn hundraðasta úr sekúndu í tugþraut í Austurríki vorið 1997. Einar Þór Einarsson hafði áður jafnað rafmet Vilmundar 1991 og Jón Arnar jafnaði handtímametið er hann hljóp á 10,3 sekúndum á móti í bænum LaGrange í Georgíuríki í Bandaríkjunum rétt fyrir ólympíuleikina í Atlanta..

aths við aths.
Á metaskrá FRÍ er 100 metra hlaup sem hef ég engan botn fengið í og hef það ekki með hér, þangað til annað kemur í ljós. Þar er Vilmundur sagður hafa hlaupið á 10,3 sekúndum á Selfossi 10. júlí 1977. Þann dag var hann ekki á Íslandi; hann var nær allan júlí, og hluta júní, á æfinga- og keppnisferðalagi í Þýskalandi ásamt fjórum öðrum hlaupurum, þar á meðal mér. Mér þykir líklegt að hér sé um mistök að ræða með stað og dagsetningu.



2 comments:

  1. Til hamingju með þennan metavef og bestu þakkir fyrir alla vinnuna.

    Helgi Hólm

    ReplyDelete
  2. Sæll Helgi og þakka þér kærlega þetta jákvæða innlegg. Þetta hefur verið langvarandi og tímafrekt grúsk en mjög gefandi.

    Hólmararnir eiga eftir að fá sína góðu fulltrúa, Björgvin og Bryndísi, þarna inn.

    Bestu þakkir og góðar kveðjur.

    Gústi

    p.s. til hamingju með verðlaunin á EM inni í vetur.

    ReplyDelete